.
Viðtal á mbl.is (5. Maí, 2019)
eftir Erlu Maríu Markúsdóttur
Hönnuðurinn og listamaðurinn Rakel Tomas leigði sér húsnæði á Laugaveginum fyrir skemmstu og á fimmtudag opnaði hún sýninguna VATN. Hún hefur því verið á bólakafi í vinnu en heppilega eru verkin hennar að þessu sinni einmitt undir áhrifum frá ansi svipaðri tilfinningu. Rakel eyddi nefnilega nokkrum vikum á Balí í vetur þar sem hún lærði á brimbretti og prófaði frjálsa köfun. Í frjálsri köfun er kafað án köfunarbúnaðs og því lengur sem kafarinn getur haldið niðri í sér andanum, því betra.
Öldurnar ráða ferðinni
„Það er eitthvað við þetta þyngdarleysi og tímaleysi sem fylgir því að vera í kafi. Það hægist á hjartslættinum og það er eins og tíminn standi í stað í smá stund á meðan maður heldur niðrí sér andanum. Húð verður allt öðruvísi viðkomu og maður upplifir hitabreytingar í vatninu næstum eins og snertingu,” segir Rakel.
„Á brimbrettinu ráða öldurnar svo ferðinni og þegar maður dettur er það eina í stöðunni að láta þær líða yfir sig og henda sér til þangað til maður kemst aftur upp til að anda.”
Rakel er ekki bara að vera ljóðræn: hjartað getur bókstaflega hægt á sér þegar mannskepnan heldur niðri í sér andanum hvort sem það er við köfun eða ekki.
Köfunarþjálfarinn hennar á Balí benti Rakel á að þegar hún hélt niðri í sér andanum og hægði þannig á hjartslættinum var eins og tíminn væri örlítið lengur að líða. Það minnti Rakel á erfið augnablik í hennar lífi.
„Stundum, þegar ég vil bara að allt stoppi, held ég ósjálfrátt niðri í mér andanum. Þarna skildi ég í fyrsta skipti af hverju.”
Sjálfsöruggari, opnari og sterkari
„Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.”
-Steinn Steinarr
Á Balí var það þó ekki tíminn heldur vatnið sem átti hug Rakelar. Hana langaði til að endurskapa þyngdarleysið í myndunum sínum. Rakel hefur skapað sér gott orð fyrir teikningar sínar af andlitum í óhefðbundnum hlutföllum. Á verkunum á nýju sýningunni eru sum andlitin á myndunum hennar á hvolfi sem tákna þyngdarleysið og hún segir að í raun megi snúa myndunum hvernig sem er. Allt snýr upp og allt snýr niður.
„Það er nýtt fyrir mig að teikna líkama, hingað til hafa flestar myndirnar mínar verið af andlitum en mig langaði að líkamstjáningin vísaði í þetta stjórnleysi, þegar öldurnar kasta manni til og maður ekkert við það ráðið,” segir hún.
„Mér finnst mjög gaman að fara í gegnum myndirnar mínar eftir að smá tími hefur liðið frá því ég teikna þær og setja þær í samhengi við það sem var að gerast í lífinu mínu á þeim tímapunkti,” segir Rakel. „Það er alveg klárlega tenging þarna á milli og ég get alveg lesið í gegnum allt sem var í gangi með því að skoða myndirnar. En það sem mér finnst gaman að sjá núna er líkamstjáningin í myndunum og svipbrigðin eru að verða sjálfsöruggari, opnari og sterkari.”
Allt í einn hólk
Rakel segir það að ferðast ein hafa styrkt sjálfsmynd hennar mikið og að það endurspeglist í myndunum.
„Balí var bara svo stórkostleg ferð í alla staði – ég hef sjaldan fengið jafn margar hugmyndir eða bara liðið jafn vel. Ég bjóst ekki endilega við því að mér myndi líða svona vel ein á ferðalagi en svo kom í ljós að þetta er bara fullkomið fyrir mig og einmitt það sem ég þarf á að halda í lífinu á þessari stundu,” segir hún.
Ferðalögunum fylgir reyndar einn vandi. Stærri myndirnar hennar, sem eru 50x70 cm passa ekki í handfarangurstöskuna og Rakel hefur ekki í hyggju að stækka við sig.
„Nú er bara að finna leið til að koma stórum myndum, öllum blýöntunum og helst einu borði, í hólk sem ég get ferðast með,” segir hún. „Ég mun finna út úr þessu, það er allt hægt.”
Sýningin VATN er staðsett á Laugavegi 27 og verður opin til 26. maí.